Stofnfundur

Stofnfundur Íslenska fæðuklasans var haldinn 25. júní 2024 í Grósku hugmyndahúsi – Mýrinni þar sem klasinn er sjálfur til húsa. Af því tilefni var boðið til móttöku sem fjöldi gesta sótti. Auk stofnanda og stjórnarformanns klasans Ingibjargar Davíðsdóttur, ávörpuðu þrír ráðherrar samkomuna, Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra. Auk þess tóku til máls fyrrverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og fyrrverandi landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson.

Sjálfur stofnfundurinn fór fram fyrr um daginn, en stjórn klasans skipa, auk Ingibjargar, Þorsteinn Kári Jónsson varaformaður, forstöðumaður sjálfbærni og samfélagstengsla hjá Marel, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Kjartan Ingvarsson lögfræðingur, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Ragnheiður Magnúsdóttir meðstofnandi og fjárfestir hjá Nordic Ignite. Þá verður Dóra Björk Þrándardóttir hjá Landsvirkjun í  varastjórn.

Meira en 20 samstarfs- og bakhjarlasamningar hafa þegar verið gerðir og fleiri samningar í undirbúningi. Á fundinum var undirritaður samstarfssamningur klasans við Borgarbyggð, sem verður fyrsta sveitarfélagið til að nýta krafta klasans.

Myndir úr móttökunni eru meðfylgjandi, flestar teknar af Guðveigu Eyglóardóttur en einnig Oscari Bjarnasyni hönnuði sem hannaði m.a. merki klasans.